154. löggjafarþing — 94. fundur,  11. apr. 2024.

skyldutryggingar lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

880. mál
[11:26]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel að sú hugsjón sem býr að baki þessu frumvarpi sé mjög jákvæð, að nýta það mikla fjármagn sem er í lífeyrissjóðum landsmanna til að byggja upp húsnæði, enda ekki vanþörf á. Ég hef þó ákveðnar áhyggjur af því að frumvarpið muni ekki ná tilgangi sínum. Ég get ekki séð að frumvarpið leggi neinar kröfur á lífeyrissjóði að sjá til þess að fjárfesting þeirra í leigufélögum skili sér í uppbyggingu húsnæðis. Því vakna áhyggjur af að þegar frumvarpið verður samþykkt þá rjúki lífeyrissjóðir inn á markaðinn og kaupi í leigufélögum með þeim afleiðingum einum að verðið á hlutabréfum í leigufélögum hækkar. Það þarf að tryggja samhliða þessu frumvarpi að leigufélög sem lífeyrissjóðir fjárfesta í taki strax við að byggja upp ný hverfi og vinni þannig niður uppsafnaða íbúðaþörf. Ég tel að hugsanlega mætti setja einhvers konar ákvæði, skylt Carlsberg-ákvæðinu, um að tiltekið hlutfall fjárfestinga lífeyrissjóðs í félögum sem leigja út húsnæði skuli nýtt af þeim félögum til uppbyggingar nýs húsnæðis. Í mínum huga ætti það helst að vera allt. Er ráðherra sammála mér um mikilvægi þess að fjárfestingar lífeyrissjóða á leigumarkaði þurfi að leiða til uppbyggingar og að frumvarp sem ekki tryggi að svo verði kunni jafnvel að hafa þveröfug áhrif á húsnæðismarkaðinn en til stóð? Og hvernig ætlar ráðherra að tryggja að 200 milljarða innflæði á húsnæðismarkaðinn leiði ekki til hækkunar húsnæðisverðs heldur frekar nýbyggingar húsnæðis?